14. febrúar 2025
Möguleikar í námi og starfi - náms- og starfsráðgjöf í síbreytilegu umhverfi
Meginmarkmið náms- og starfsráðgjafa er að aðstoða fólk á öllum aldri við að efla vitund sína um eigin hæfileika, viðhorf og áhuga. Hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) starfa tveir náms- og starfsráðgjafar og er meginhlutverk þeirra að aðstoða einstaklinga frá 18 ára aldri við að skoða möguleika sína þegar kemur að námstækifærum, starfsferli, raunfærnimati og/eða leiðbeina varðandi námstækni.
Á hverju ári eru tekin um eitt þúsund náms- og starfsráðgjafarviðtöl hjá MSS. Helsta ástæða þess að fólk leitaði sér ráðgjafar á síðasta ári var til að fá aðstoð vegna starfsleitar, svo sem við gerð ferilskrár, skrif á kynningarbréfi og/eða vegna undirbúnings fyrir atvinnuleit. Einnig komu einstaklingar til að fá raunfærni sína metna út frá starfsreynslu, skoða áhugasvið sitt og styrkleika, fá stuðning við námstækni og vinnubrögð eða einfaldlega til að efla sjálfstraust sitt í tengslum við nám og störf.
Í samfélagi okkar í dag, sést að vinnumarkaðurinn er að breytast hratt og spáð er að sú þróun muni halda áfram á næstu árum. Örar breytingar kalla á aðlögunarhæfni einstaklinga sem gerir sí- og endurmenntun mikilvægari en áður var. Með virkri sí- og endurmenntun er hægt að aðstoða fólk við að takast á við þau umskipti sem þessar breytingar fela í sér.
Að uppfæra „búnaðinn“ sinn
Það er mikilvægt að hafa í huga að líkt og með tölvur, þurfum við mannfólkið líka að uppfæra búnaðinn okkar.
Þegar við lagfærum eldhúsið okkar eða heimili, eyðum við oft miklum tíma í skipulagningu og hugmyndavinnu. Af hverju ættum við ekki að gera slíkt hið sama með starfsferil okkar? Hvers vegna leyfum við oft tilviljunum að stjórna því hvernig ferillinn þróast? Líkt og í rekstri fyrirtækja, hvers vegna setjumst við ekki niður og skoðum hvað okkur líkar, hvað okkur líkar ekki, skoðum næstu skref og búum jafnvel til nýja áætlun? Það þætti galið að setja upp áætlun í fyrirtæki og endurskoða hana aldrei aftur.
Hvaða færni hef ég, hver gætu verið næstu skref, hverju þarf ég að bæta við? Hvaða þróun og breytingar sé ég á vinnumarkaði og hvernig samræmast þær þeirri þróun sem tengist mínum vettvangi? Langar mig kannski bara að skoða eitthvað allt annað? Það er nefnilega svo dásamlegt að við megum skipta um skoðun en hvernig get ég svo tekið þá færni og þekkingu sem ég bý yfir og stýrt inn á ný svið?
Rannsóknir hafa sýnt að virk sí- og endurmenntun hefur jákvæð áhrif á starfsánægju og eykur öryggi á vinnumarkaði.
Við hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, viljum bjóða þér í samtal. Ráðgjöfin er þátttakendum að kostnaðarlausu. Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu okkar www.mss.is og í síma 421 7500. Ekki hika við að hafa samband.
Höf. Steinunn Björk Jónatansdóttir,
Náms- og starfsráðgjafi/ deildarstjóri hjá MSS.