Fyrirtækjasvið MSS

Sérsniðið að þínum þörfum

Ummæli viðskiptavina

Við hjá Skólamat ehf. höfum lengi unnið í nánu samstarfi við sérfæðinga MSS að fræðslumálum innan fyrirtækisins eða allt frá árinu 2007. Fræðslumálin hafa þróast mikið og segja má að það sé orðinn fastur liður í menningu fyrirtækisins að hefja haustönn á námsviku þar sem starfsfólk kemur saman og fær þá fræðslu og kennslu sem er þeim nauðsynleg í starfi. Auk þess er lögð áhersla á vellíðan í starfi, öryggi og fagmennsku. Fræðslan er sérsniðin að hverjum og einum hóp og unnin út frá nýjustu þekkingu og þörfum hverju sinni.
Á COVID tímum stóðum við frammi fyrir miklum áskorunum þar sem samkomubönn og aðrar takmarkanir settu okkur stólinn fyrir dyrnar. Með tækninni og lausnamiðaðri hugsun starfsfólks MSS leystum við fræðsluvikurnar og þá lausn höfum við ásamt MSS þróað enn frekar öllum til ánægju.
Okkar góða samstarf og sú jákvæðni og fagmennska sem ríkir í starfsmannaliði MSS er okkur í Skólamat virkilega mikilvæg.

Skólamatur
Fanný Axelsdóttir

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur verið samstarfsaðili Isavia varðandi íslenskukennslu á vinnustaðnum. Það hefur allt gengið vel fyrir sig og ótrúlega dýrmætt að geta sótt í reynslubrunn miðstöðvarinnar þegar kemur að því að kenna ólíkum hópum íslensku. Skipulagið og framkvæmdahlutinn hafa verið til fyrirmyndar á sama tíma og við þróum þetta áfram í sameiningu.

Anna Lóa Ólafsdóttir
Kennsluráðgjafi Isavia

Við fundum fyrir áhuga hjá okkar erlenda starfsfólki að læra íslensku. Það er hins vegar oft erfitt fyrir einstaklinga að taka af skarið og skrá sig á námskeið og einnig er stundum hræðsla við að fara ein(n) á námskeið þar sem þú þekkir engan. Þegar við merktum þennan áhuga meðal okkar starfsfólks, settum við okkur í samband við MSS til að kanna hvaða leiðir væru í boði fyrir okkar starfsfólk. Okkur til mikillar ánægju kom í ljós að MSS býður uppá að koma með íslensku kennslu inn í fyrirtæki, sem hentaði okkur frábærlega. Með því að bjóða okkar starfsfólki að koma saman á vinnustaðnum, sem þau þekkja og líður vel í, trúðum við að við gætum kveikt áhuga fólksins okkar til að læra íslensku. Viðbrögðin komu okkur sannarlega á óvart og mun fleiri starfsmenn létu í ljós áhuga á að fá kennslu í íslensku heldur en við áttum á.

Vissulega eru áskoranir í því að koma með svona námskeið inn í fyrirtækið þar sem hættan er á því að nemendur séu mismunandi langt komnir í íslenskunni en það var leyst mjög vel af verkefnastjóra MSS. Náms- og starfsráðgjafar frá MSS hittu starfsfólkið fyrir námskeið og fóru allir í gegnum þarfagreiningarferli. Það sem kom líka ánægjulega á óvart var að liðsandinn jókst við að samstarfsfólk af mismunandi þjóðernum kom saman í sama tilgangi, að læra íslensku. Þeir sem lengra voru komnir aðstoðuðu þá sem voru að taka sín fyrst skref í íslenskunni og fólk kynnist betur við að leysa önnur viðfangsefni en bara að kynnast við vinnuna. Starfsfólk okkar var mjög ánægt með þetta framtak okkar og frábæra þjónustu MSS. Sjálfstraustið er aukið hjá okkar fólki og núna eru nokkrir búnir að skrá sig á framhaldsnámskeið í íslensku og ekki lengur hræðsla við að fara á námskeið fyrir utan fyrirtækisins, þar sem maður þekki engan.

Ég get mælt með þjónustu MSS að fullum hug og mun eftir sem áður halda áfram að leita til MSS, enda höfum við eingöngu mætt frábæru viðmóti, góðum sérfræðingum/leiðbeinendum og án undantekninga verið ánægð með þá þjónustu og þær afurðir sem hafa orðið til í samstarfi okkar við MSS.

Friðrik Einarsson hótelstjóri og einn af eigendum Hótel Northern Light Inn

Nám sem svarar þörfinni

Eins og flestir vita hafa staðið yfir miklar breytingar hjá Vísi á árinu. Fyrirtækið hefur verið að færa saman fjórar fiskvinnslur í tvær og eru þær báðar í Grindavík. Í öðru húsinu er saltfiskverkun þar sem unnin eru bæði saltflök og flattur fiskur, en í hinu er unninn ferskur fiskur, frystur og léttsaltaður. Ef frá eru taldar tvær flatningsvélar í saltvinnslunni er allur annar búnaður íslenskur.
Með öðrum orðum hugvit, hönnun og framleiðsla tækjanna í þessum hátæknivæddu húsum er alíslensk. Við erum afar stolt af þeirri staðreynd.

Þeir sem hafa ekki nýlega gengið í gegnum nútíma fiskvinnslu verða eflaust undrandi á þeirri tækni sem þar er notuð í dag. Það gefur auga leið að til að vinna með þessa íslensku tækni og til að halda tækjunum við, þarf vel menntað fólk og er símenntun nauðsynleg í þeirri öru þróun sem þar á sér stað.

Samstarf Vísis við MSS er til fyrirmyndar og hefur sannað sig rækilega varðandi þennan þátt. Einnig er staðreynd að stór hópur okkar góða starfsfólks hefur annað tungumál en íslensku að móðurmáli og því nauðsynlegt að tryggja að tjáning fólks sín í milli sé sem öruggust. Þar kemur til kasta MSS með námskeið af ýmsu tagi, svo sem námskeið í tjáningu og sjálfstyrkingu auk hefðbundinna íslenskunámskeiða. Þá hefur MSS haldið heilsumatreiðslunámskeið á vinnustaðnum.
Í þessari stuttu upptalningu má heldur ekki gleyma þeim kjarasamningsbundnu grunn- og framhaldsnámskeiðum í fiskvinnslunni sjálfri sem MSS stendur fyrir. Af þeim námskeiðum kemur fólk alltaf til baka sem betri og ánægðari starfskraftur.

Að ofantöldu sést vel hve nauðsynlegt starf MSS er. Reynsla Vísis af samstarfinu við miðstöðina er mjög góð og það er traustvekjandi að geta leitað til þeirrar reynslu sem þar er þegar farið er í krefjandi verkefni eins og það sem nú er unnið að hjá okkur.

Að lokum við ég þakka starfsfólki MSS fyrir einstaklega gott samstarf á liðnum árum og vona að það haldi áfram að blómstra í framtíðinni.

Starfsmannstjóri hjá Vísi hf.
Ágústa Óskarsdóttir

Þjónusta

Við bjóðum upp á námskeið og ráðgjöf fyrir fyrirtæki og einstaklinga þar sem þarfir hvers og eins eru hafðar að leiðarljósi. Hér eru gefin dæmi um hvernig við getum þjónustað fyrirtæki og stofnanir en svo erum við alltaf tilbúin að setjast niður og skoða hvað það er sem viðskiptavinurinn leitar að. Meðal þess sem við getum boðið upp á er fræðslustjóri að láni inn á vinnustaðinn, þarfagreiningu, stutta hnitmiðaða fyrirlestra í hádeginu, styttri eða lengri námskeið, stefnumótun og hópefli meðal starfsfólksins.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum býður uppá fjölbreytta þjónustu fyrir fyrirtæki og stofnanir þar sem haft er að leiðarljósi að aðlaga þjónustuna að þörfum hvers fyrirtækis.