17. nóvember 2023
Nemandi MSS hlaut viðurkenninguna Fyrirmynd í námi fullorðinna
Beata Justyna Bistula hlaut viðurkenninguna Fyrirmynd í námi fullorðinna.
Við hjá MSS erum ótrúlega stolt af fyrrum nemanda okkar sem hlaut fyrr í vikunni viðurkenninguna Fyrirmynd í námi fullorðina, sem veitt var á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins á Grand hóteli í Reykjavík þann 14. nóvember.
Beata er frá Pólllandi og með kennsluréttindi frá heimalandi sínu, hún hefur búið á Íslandi í um 10 ár. Beata var í námi hjá MSS veturinn 2022-2023 og lauk bæði Leikskólasmiðju og Fagnámi fyrir starfsmenn leikskóla en báðar námsleiðirnar voru uppbyggðar fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og var fagtengd íslenska samtvinnuð við allt námið. Beata stóð sig framúrskarandi vel í náminu og fékk í framhaldi starf á leikskólanum Garðaseli hér í Reykjanesbæ.
Viðurkenningin og verðlaunin sem henni fylgja eru veitt einstaklingum sem hafa breytt stöðu sinni á vinnumarkaði eftir þátttöku í úrræðum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, sýnt góðan námsárangur, frumkvæði, kjark og náð að yfirstíga ýmis konar hindranir.
Innilega til hamingju með viðurkenninguna Beata og við óskum þér góðs gengis í framtíðinni og í hverju því sem þú munt taka þér fyrir hendur.