12. mars 2025
Stór hluti þeirra sem leita sér ráðgjafar kemur til að fá aðstoð í atvinnuleit
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins kynnti í vikunni áhugaverðar tölur um náms- og starfsráðgjöf innan framhaldsfræðslunnar.
Tölfræðin sýnir hvernig þjónustan dreifist milli miðstöðva um allt land, sem veitir mikilvægar upplýsingar um nauðsynleg úrræði fyrir einstaklinga sem leita sér aðstoðar við þróun náms- og starfsferils síns.
Í samantektinni var skoðað hversu margir sækja sér ráðgjafar, kynjahlutfall, tegund ráðgjafar, og hvort viðtölin eru rafræn, einstaklings- eða hópráðgjöf. Þá er einnig skoðaðar tölur út frá stöðu á vinnumarkaði. Skoðað var hlutfall á niðurstöðu viðtala og staða einstaklinga á vinnumarkaði eftir landshlutum.
Sérstaklega áhugavert var að sjá hversu stór hluti þeirra sem leita sér ráðgjafar hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS), kemur til að fá aðstoð vegna atvinnuleitar.
Fjölmargir koma í leit að aðstoð við gerð ferilskrár, sem og að undirbúa sig undir atvinnuviðtal. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að veita sérhæfða ráðgjöf og stuðning fyrir þessa hópa, sérstaklega í ljósi þess að atvinnumarkaðurinn er að breytast hratt og mikil hreyfing er á vinnumarkaði.
Hlutverk símenntunarstöðva er að laga sig eftir þörfum samfélagsins. Við munum halda áfram að fylgjast með þróuninni og leitast við að hlusta eftir þörfum og bæta þjónustuna, svo hún henti nær samfélaginu.
Á meðfylgjandi mynd má sjá atvinnustöðu þeirra sem komu í ráðgöf árið 2024.