26. október 2016
Nordic Learning Center Innovation
MSS er þátttakandi í Nordplus verkefninu Nordic learning center innovation þar sem unnið er með hugmyndir um nýsköpun norrænna námsmiðstöðva en verkefnið miðar að endurhönnun og nýsköpun þeirra kennsluaðferða og lausna sem þátttakendur nýta nú þegar í miðstöðvum sínum. Sérstök áhersla er lögð á að til verði sjálfbærar leiðir innan hverrar miðstöðvar með tilliti til þeirra áskoranna sem þeim mæta.
Verkefnið byggir á fjórum meginþáttum sem allir miða að því að styrkja námsmiðstöðvar og efla nærsamfélagið. Þættirnir nefnast markviss miðlun, nýjar leiðir til að nema, að nálgast nýja þátttakendur og að virkja nærsamfélagið við nám. Þátttakendur í verkefninu auk MSS koma frá Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.
Markmið verkefnisins eru að:
- Efla og fjölga námstækifærum innan námsmiðstöðva
- Styrkja og efla menntunarstig í nærsamfélaginu í gegnum fjarnám
- Gera fleirum kleift að stunda fjarnám frá heimabyggð og efla þannig atvinnu í nærsamfélaginu
- Nýta fjölbreyttar leiðir við nám og kennslu í fjarnámi
Hlutverk MSS í verkefninu snýr meðal annars að því að miðla af reynslu miðstöðvarinnar við að koma til móts við mismunandi hópa þátttakenda. Einnig hvernig laða má að nýja þátttakendur en MSS hefur með árangursríkum hætti nálgast t.d. brotthvarfsnemendur, þátttakendur af erlendum uppruna, ófaglærða á atvinnumarkaði og svo framvegis.